Fyrsta Mósebók 24

24
Ísak og Rebekka
1Nú var Abraham orðinn gamall og hniginn að aldri og hafði Drottinn blessað hann í öllu. 2Þá sagði Abraham við elsta þjón sinn sem réð fyrir öllu sem hann átti: „Settu hönd þína undir lend mína 3og vinn mér eið að því við Drottin, Guð himnanna og Guð jarðarinnar, að þú munir ekki taka syni mínum konu af dætrum Kanverja, sem ég bý á meðal, 4heldur skulir þú fara til föðurlands míns, til ættfólks míns, og taka konu handa Ísak, syni mínum.“
5Þjónninn svaraði: „En ef konan vill nú ekki fylgja mér til þessa lands. Á ég þá að fara með Ísak til landsins þaðan sem þú komst?“
6Abraham svaraði: „Gættu þess að fara ekki þangað með son minn. 7Drottinn, Guð himnanna, tók mig úr húsi föður míns, úr ættlandi mínu, talaði við mig og sór mér svohljóðandi eið: Niðjum þínum mun ég gefa þetta land. Hann mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir fá syni mínum konu þaðan. 8En vilji konan ekki fara með þér þá ertu laus undan eiðnum. Gættu þess eins að fara ekki með son minn þangað.“
9Þjónninn lagði þá hönd sína undir lend Abrahams, húsbónda síns, og vann honum eið að þessu.
10Þjónninn tók nú tíu úlfalda af úlföldum húsbónda síns og hélt af stað og hafði með sér alls kyns dýrgripi húsbónda síns. Hann tók sig upp og hélt til Mesópótamíu, til Nahorsborgar. 11Er komið var kvöld lét hann úlfaldana leggjast við vatnsbrunn nokkurn utan borgar í þann mund er konur komu að sækja vatn. 12Og hann gerði bæn sína: „Drottinn, Guð Abrahams, húsbónda míns. Vertu með mér í dag og auðsýndu Abraham, húsbónda mínum, miskunn. 13Sjá hvar ég stend við vatnslindina og dætur borgarmanna koma brátt hingað að sækja vatn. 14Gef þú að stúlkan sem ég segi við: Leyf mér að drekka úr vatnskeri þínu, og svarar: Fáðu þér að drekka og ég skal einnig brynna úlföldum þínum, gef að það sé hún sem þú hefur ákvarðað handa Ísak, þjóni þínum. Þar með veit ég að þú hefur auðsýnt húsbónda mínum miskunn.“
15Áður en þjónninn hafði sleppt orðinu birtist Rebekka en hún var dóttir Betúels, sonar Milku, eiginkonu Nahors, bróður Abrahams, og bar hún vatnsker sitt á öxlinni. 16Stúlkan var forkunnarfögur á að líta. Hún var mey, hafði ekki karlmanns kennt. Gekk hún niður að brunninum, fyllti vatnsker sitt og gekk upp frá lindinni. 17Hljóp þá þjónninn á móti henni og mælti: „Gefðu mér sopa að drekka úr vatnskeri þínu.“ 18Og hún sagði: „Drekktu, herra minn.“ Og jafnskjótt tók hún vatnskerið af öxlinni annarri hendi og gaf honum að drekka. 19Er hún hafði gefið honum að drekka mælti hún: „Ég skal einnig ausa handa úlföldum þínum uns þeir hafa drukkið nægju sína.“
20Hún var ekki sein á sér og tæmdi vatnsker sitt í vatnsþróna og hljóp jafnskjótt aftur að lindinni að ausa. Og hún jós vatni handa öllum úlföldum hans.
21Þjónn Abrahams horfði þögull á hana til að vita hvort Drottinn hefði látið för hans heppnast eða ekki.
22Þegar úlfaldarnir höfðu drukkið fylli sína tók maðurinn fram nefhring úr gulli sem vó hálfan sikil og dró tvö armbönd á hendur henni. Þau vógu tíu sikla gulls. 23Því næst mælti hann: „Segðu mér hvers dóttir þú ert. Er rúm fyrir okkur í húsi föður þíns, að við megum gista?“
24Hún sagði við hann: „Ég er dóttir Betúels, sonar Milku, sem hún ól Nahor.“ 25Og hún bætti við: „Við erum vel birg af hálmi og heyjum og einnig er húsrúm til gistingar.“
26Þá varpaði maðurinn sér til jarðar og laut Drottni djúpt 27og sagði: „Lofaður sé Drottinn, Guð Abrahams, húsbónda míns. Hann hefur ekki látið af miskunn sinni og trúfesti við húsbónda minn. Og mig hefur Drottinn leitt veginn til húss frænda húsbónda míns.“
28Og stúlkan hljóp heim í hús móður sinnar og sagði frá öllu því sem við hafði borið.
29Rebekka átti bróður. Hann hét Laban. Hann skundaði nú til mannsins við lindina. 30Þegar hann hafði séð nefhringinn og armböndin á höndum systur sinnar og heyrt orð Rebekku systur sinnar er hún sagði: „Þannig talaði maðurinn við mig,“ þá fór hann til mannsins. Og þar stóð hann hjá úlföldunum við lindina. 31Laban mælti: „Blessaður sértu af Drottni. Komdu inn. Hví stendur þú hér úti við? Ég hef búið þér rúm og nóg rými er fyrir úlfalda þína.“
32Maðurinn gekk þá inn í húsið og Laban spretti af úlföldunum og gaf þeim hálm og hey og sótti vatn handa þjóninum til að þvo fætur sína og fætur mannanna sem með honum voru. 33Síðan var matur borinn fyrir hann en hann mælti: „Ég neyti ekki matar fyrr en ég hef borið upp erindi mitt.“
Og Laban sagði: „Talaðu.“
34Og hann tók til máls: „Ég er þjónn Abrahams. 35Drottinn hefur mikillega blessað húsbónda minn og hann er orðinn stórauðugur. Hann hefur gefið honum sauði og naut, silfur og gull, þræla og ambáttir, úlfalda og asna. 36Og Sara, kona húsbónda míns, hefur alið herra mínum son í elli sinni og honum hefur hann gefið allt sem hann á. 37Húsbóndi minn tók af mér eið og sagði: Þú mátt ekki taka syni mínum konu af dætrum Kanverja sem ég bý hjá í landi þeirra. 38Þú skalt fyrir alla muni fara til húss föður míns, til ættmenna minna, til að taka syni mínum konu. 39Þá sagði ég við húsbónda minn: Vera má að konan vilji ekki fara með mér. 40Þá sagði hann við mig: Ég hef ætíð gengið fyrir augliti Drottins. Hann mun senda engil sinn með þér og hann mun greiða götu þína, þú munt fá konu handa syni mínum af ættfólki mínu og húsi föður míns. 41Því aðeins skaltu vera laus við þann eið er þú sverð mér að þú farir til ættfólks míns en þeir vilji ekki gefa þér hana. Þá ertu laus undan eiðnum. 42Í dag kom ég að brunninum og sagði: Drottinn, Guð Abrahams, húsbónda míns. Ætlir þú að láta þessa för mína lánast 43þá sjá þú: Ég stend hér við brunninn. Ég mun segja við þá stúlku sem kemur að ausa vatni: Gefðu mér sopa að drekka af vatnskeri þínu, 44og ef hún segir við mig: Bæði skaltu sjálfur drekka og einnig mun ég ausa vatni handa úlföldum þínum, gef þú að hún sé sú kona sem Drottinn hefur ákvarðað handa syni húsbónda míns. 45Varla hafði ég sagt þetta með sjálfum mér þegar Rebekka kom með vatnskrús á öxlinni, gekk niður að brunninum og jós vatni. Þá sagði ég við hana: Gefðu mér að drekka. 46Óðara setti hún vatnskrúsina niður og sagði: Drekktu, og ég skal einnig brynna úlföldum þínum. Ég drakk og hún brynnti úlföldunum líka. 47Þá spurði ég hana og sagði: Hvers dóttir ert þú? Og hún svaraði: Ég er dóttir Betúels, sonar Nahors, sem Milka ól honum. Setti ég þá hring í nef hennar og armbönd á handleggi hennar. 48Ég varpaði mér til jarðar og laut Drottni og lofaði Drottin, Guð Abrahams, húsbónda míns, sem hafði leitt mig hinn rétta veg til að taka syni húsbónda míns dóttur bróðursonar hans fyrir konu. 49En nú verðið þið að segja til um það hvort þið viljið sýna húsbónda mínum kærleika og trúfesti. Ef ekki, segið þá til svo að ég geti farið annað.“
50Þeir Laban og Betúel svöruðu: „Þetta er frá Drottni komið. Við getum ekkert sagt. 51Þarna er Rebekka frammi fyrir þér. Taktu hana og farðu leiðar þinnar. Hún verður kona sonar húsbónda þíns eins og Drottinn hefur kveðið á um.“
52Þegar þjónn Abrahams heyrði svör þeirra laut hann Drottni til jarðar. 53Hann tók fram skartgripi af silfri og gulli og klæðnaði og gaf Rebekku. Og bróður hennar og móður færði hann gersemar. 54Þeir átu og drukku, hann og þeir sem með honum voru, og gistu um nóttina. Um morguninn risu þeir úr rekkju og hann sagði: „Leyfið mér að fara heim til húsbónda míns.“
55En bróðir Rebekku og móðir svöruðu: „Leyfðu stúlkunni að vera um kyrrt hjá okkur í nokkra daga, svo sem tíu daga, og þá geturðu farið.“
56Þá sagði hann við þau: „Tefjið mig ekki. Drottinn hefur látið för mína heppnast, leyfið mér að fara heim til húsbónda míns.“
57Þau svöruðu: „Köllum á stúlkuna og spyrjum hana sjálfa.“
58Og þau kölluðu á Rebekku og spurðu hana: „Viltu fara með þessum manni?“
„Já,“ svaraði hún.
59Þá létu þau Rebekku, systur sína, fara ásamt fóstru hennar og þjóni Abrahams og mönnum hans. 60Og þau blessuðu Rebekku og mæltu til hennar:
Systir,
vaxi af þér þúsundir
tugþúsunda
og eignist niðjar þínir
borgarhlið fjandmanna sinna.
61Þá tók Rebekka sig upp með þernum sínum og stigu þær á bak úlföldunum og fóru með manninum. Og þjónninn hélt af stað og tók Rebekku með sér.
62Nú er að segja frá Ísak. Hann var nýkominn frá brunninum Lahaj-roí því að hann dvaldist í Negeb. 63Hann gekk út á akurinn að kvöldlagi til að gera bæn sína. Varð honum litið upp og sá þá hvar úlfaldalest nálgaðist. 64Rebekku varð einnig litið upp og kom hún auga á Ísak. Hún fór af baki 65og spurði þjóninn: „Hver er þessi maður sem gengur yfir akurinn til móts við okkur?“
„Það er húsbóndi minn,“ svaraði þjónninn. Tók hún þá blæju sína og huldi sig.
66Þjónninn sagði nú Ísak frá öllu sem hann hafði gert. 67Og Ísak leiddi Rebekku í tjald Söru, móður sinnar, og tók Rebekku sér til handa og varð hún kona hans. Ísak fékk ást á henni og lét huggast eftir móðurmissinn.

Цяпер абрана:

Fyrsta Mósebók 24: BIBLIAN07

Пазнака

Падзяліцца

Капіяваць

None

Хочаце, каб вашыя адзнакі былі захаваны на ўсіх вашых прыладах? Зарэгіструйцеся або ўвайдзіце