Fyrsta Mósebók 34

34
Dína svívirt
1Eitt sinn gekk Dína, dóttirin sem Lea hafði alið Jakobi, út til að hitta stúlkurnar þar um slóðir. 2Síkem, sem var sonur Hevítans Hemors, höfðingja landsins, kom auga á hana. Hann tók hana með valdi, lagðist með henni og nauðgaði henni. 3Hann varð hugfanginn af Dínu, dóttur Jakobs, lagði ást á stúlkuna og reyndi að vinna hjarta hennar. 4Hann sagði við Hemor föður sinn: „Fáðu mér þessa stúlku fyrir konu.“
5Jakob frétti að Síkem hefði svívirt Dínu, dóttur hans, en af því að synir hans voru úti í haga með fénað hans þá aðhafðist hann ekkert fyrr en þeir komu heim. 6Þá kom Hemor, faðir Síkems, til Jakobs til að ræða við hann. 7Synir Jakobs voru komnir heim úr haganum og þegar þeir heyrðu hvað gerst hafði var þeim mjög misboðið. Þeir urðu ævareiðir vegna þess að Síkem hafði gert sig sekan um það sem talið var óhæfuverk í Ísrael er hann lagðist með dóttur Jakobs. Slíkt hefði ekki átt að gerast.
8Hemor sneri sér að þeim og sagði: „Síkem, sonur minn, er mjög ástfanginn af systur ykkar. Gefið honum hana fyrir konu. 9Mægist við okkur, gefið okkur dætur ykkar og takið í staðinn dætur okkar. 10Þið getið búið hjá okkur, landið stendur ykkur til boða. Dveljist hér, farið um og festið ykkur eignir.“ 11Síkem sagði við föður Dínu og bræður hennar: „Sýnið mér velvilja og ég mun greiða allt það sem þið setjið upp. 12Krefjist svo mikils heimanmundar sem ykkur þóknast og biðjið um þá gjöf sem ykkur lystir. Ég mun greiða það sem þið krefjist svo fremi að þið gefið mér stúlkuna fyrir konu.“
13Synir Jakobs svöruðu Síkem og Hemor, föður hans, með slægð af því að Síkem hafði svívirt Dínu, systur þeirra. 14Þeir sögðu við þá: „Útilokað er að við gefum systur okkar óumskornum manni. Það yrði okkur til skammar. 15Því aðeins getum við orðið við bón ykkar að þið verðið eins og við og umskerið allt karlkyns meðal ykkar. 16Þá gætum við gefið ykkur dætur okkar, tekið okkur dætur ykkar og búið hjá ykkur svo að við yrðum ein þjóð. 17Ef þið farið ekki að vilja okkar og látið umskerast þá tökum við systur okkar og förum héðan.“
18Hemor og Síkem sonur hans voru ánægðir með svar þeirra. 19Ungi maðurinn hófst þegar handa því að hann var ástfanginn af dóttur Jakobs. Hann var sá sem naut mestrar virðingar í ætt föður síns.
20Hemor og Síkem, sonur hans, komu í hlið borgar sinnar, tóku borgarbúa tali og sögðu: 21„Þessir menn eru okkur vinveittir. Leyfum þeim að setjast að í landinu og fara allra sinna ferða því að nóg er landrýmið handa þeim. Tökum okkur dætur þeirra fyrir konur og gefum þeim dætur okkar. 22En því aðeins vilja mennirnir verða við bón okkar og búa meðal okkar þannig að við verðum ein þjóð, að við látum umskera allt karlkyns meðal okkar eins og þeir eru umskornir. 23Verða ekki hjarðir þeirra, eigur og allur fénaður eign okkar? Látið að vilja þeirra svo að þeir setjist að hjá okkur.“ 24Allir menn borgarinnar reyndust sammála Hamor og Síkem, syni hans, og allt karlkyns lét umskerast, allir menn borgarinnar.
25Á þriðja degi, er mennirnir voru þjáðir af sárum sínum, tóku tveir synir Jakobs og bræður Dínu, þeir Símeon og Leví, sverð sín og gengu inn í borgina sem átti sér einskis ills von og drápu þar allt karlkyns. 26Þeir drápu einnig Hemor og Síkem, son hans, með sverðum, tóku síðan Dínu úr húsi Síkems og fóru burt. 27Synir Jakobs gengu yfir hina vegnu og rændu borgina af því að systir þeirra hafði verið svívirt. 28Þeir tóku sauði borgarbúa, naut þeirra og asna, bæði innan og utan borgarinnar. 29Þeir höfðu á brott með sér allar eigur þeirra, öll börn þeirra og konur og rændu öllu sem var í húsunum.
30Jakob sagði við Símeon og Leví: „Þið hafið steypt mér í ógæfu og bakað mér hatur landsmanna, Kanaaníta og Peresíta. Af því að við erum svo fáliðaðir verður bæði mér og ætt minni eytt ef þeir safnast saman gegn mér.“ 31En þeir svöruðu: „Átti honum þá að líðast að fara með systur okkar eins og skækju?“

Цяпер абрана:

Fyrsta Mósebók 34: BIBLIAN07

Пазнака

Падзяліцца

Капіяваць

None

Хочаце, каб вашыя адзнакі былі захаваны на ўсіх вашых прыладах? Зарэгіструйцеся або ўвайдзіце