Fyrsta Mósebók 8

8
Flóðinu linnir
1Þá minntist Guð Nóa og allra dýranna og alls búfjárins sem með honum var í örkinni. Guð lét vind blása yfir jörðina og sjatnaði þá vatnið. 2Uppsprettur hins mikla djúps og flóðgáttir himinsins lukust aftur og steypiregninu af himnum linnti. 3Vatnið rénaði smám saman á jörðinni. Að hundrað og fimmtíu dögum liðnum þvarr það 4og örkin kenndi grunns á Araratsfjöllum í sjöunda mánuðinum, á sautjánda degi mánaðarins. 5Vatnið var að réna allt til tíunda mánaðar. Á fyrsta degi hins tíunda mánaðar sáust fjallatindarnir.
6Að liðnum fjörutíu dögum lauk Nói upp glugga arkarinnar sem hann hafði gert 7og sendi út hrafn. Hann flaug fram og aftur uns vatnið þornaði á jörðinni. 8Þá sendi hann frá sér dúfu til að gæta að því hvort vatnið væri þorrið á jörðinni. 9En dúfan gat hvergi tyllt sér og hvarf aftur til hans í örkina því að vatn var enn yfir jörðinni allri. Hann rétti út hönd sína og tók dúfuna til sín í örkina. 10Enn beið hann í sjö daga en sendi þá dúfuna öðru sinni úr örkinni. 11Dúfan kom aftur til hans undir kvöld og var þá með grænt ólífuviðarblað í nefinu. Þá vissi Nói að vatnið var þorrið af jörðinni. 12Enn beið hann sjö daga og lét þá dúfuna út en hún sneri ekki aftur til hans.
13Á sex hundraðasta og fyrsta æviári Nóa, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þornað á jörðinni. Og þegar Nói tók ofan þekjuna af örkinni sá hann að yfirborð jarðarinnar var orðið þurrt. 14Í öðrum mánuðinum, á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins, var jörðin alþurr. 15Og Guð mælti til Nóa: 16„Gakk þú úr örkinni, þú og kona þín og synir þínir og tengdadætur þínar með þér, 17og leið þú út öll dýr sem með þér eru, af öllum tegundum, af fugli, af búfé og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni, og þau skulu margfaldast, verða frjósöm og fjölga sér á jörðinni.“
18Þá gekk Nói út og synir hans og kona hans og tengdadætur hans með honum. 19Öll dýr, öll skriðdýr og allir fuglar, allt sem jörðin er kvik af kom út úr örkinni eftir ættum sínum.
20Þá reisti Nói Drottni altari, tók af öllum hreinum dýrum og af öllum hreinum fuglum og færði brennifórn á altarinu. 21Og Drottinn fann sætan ilm og sagði í hjarta sínu: „Eigi mun ég framar leiða bölvun yfir jörðina vegna mannsins þótt hneigðir mannsins séu illar, allt frá æsku hans, og upp frá þessu mun ég ekki framar gereyða því sem lifir eins og ég hef gert.
22Svo lengi sem jörðin stendur
skal hvorki linna sáningu né uppskeru,
frosti né hita,
sumri né vetri,
degi né nóttu.“

Цяпер абрана:

Fyrsta Mósebók 8: BIBLIAN07

Пазнака

Падзяліцца

Капіяваць

None

Хочаце, каб вашыя адзнакі былі захаваны на ўсіх вашых прыладах? Зарэгіструйцеся або ўвайдзіце