En Pétur mælti: “Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns? Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði.” Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu.