YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 15

15
Guð gjörir sáttmála við Abram
1Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: “Óttast þú ekki, Abram, ég er þinn skjöldur, laun þín munu mjög mikil verða.” 2Og Abram mælti: “Drottinn Guð, hvað ætlar þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus, og Elíeser frá Damaskus verður erfingi húss míns.” 3Og Abram mælti: “Sjá, mér hefir þú ekkert afkvæmi gefið, og húskarl minn mun erfa mig.”
4Og sjá, orð Drottins kom til hans: “Ekki skal hann erfa þig, heldur sá, sem af þér mun getinn verða, hann mun erfa þig.” 5Og hann leiddi hann út og mælti: “Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær.” Og hann sagði við hann: “Svo margir skulu niðjar þínir verða.” 6Og Abram trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis.
7Þá sagði hann við hann: “Ég er Drottinn, sem leiddi þig út frá Úr í Kaldeu til þess að gefa þér þetta land til eignar.” 8Og Abram mælti: “Drottinn Guð, hvað skal ég hafa til marks um, að ég muni eignast það?” 9Og hann mælti við hann: “Fær mér þrevetra kvígu, þrevetra geit, þrevetran hrút, turtildúfu og unga dúfu.” 10Og hann færði honum öll þessi dýr og hlutaði þau sundur í miðju og lagði hvern hlutinn gegnt öðrum. En fuglana hlutaði hann ekki sundur. 11Og hræfuglar flugu að ætinu, en Abram fældi þá burt.
12Er sól var að renna, leið þungur svefnhöfgi á Abram, og sjá: felmti og miklu myrkri sló yfir hann.
13Þá sagði hann við Abram: “Vit það fyrir víst, að niðjar þínir munu lifa sem útlendingar í landi, sem þeir eiga ekki, og þeir munu þjóna þeim, og þeir þjá þá í fjögur hundruð ár. 14En þá þjóð, sem þeir munu þjóna, mun ég dæma, og síðar munu þeir þaðan fara með mikinn fjárhlut. 15En þú skalt fara í friði til feðra þinna, þú skalt verða jarðaður í góðri elli. 16Hinn fjórði ættliður þeirra mun koma hingað aftur, því að enn hafa Amorítar eigi fyllt mæli synda sinna.”
17En er sól var runnin og myrkt var orðið, kom reykur sem úr ofni og eldslogi, er leið fram á milli þessara fórnarstykkja.
18Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: “Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat: 19land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta, 20Hetíta, Peresíta, Refaíta, 21Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta.”

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in