Lúkasarguðspjall 16

16
Gjör reikningsskil
1Enn sagði hann við lærisveina sína: “Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. 2Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ‘Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.’ 3Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ‘Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. 4Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.’
5Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: ‘Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?’ 6Hann svaraði: ‘Hundrað kvartil viðsmjörs.’ Hann mælti þá við hann: ‘Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.’ 7Síðan sagði hann við annan: ‘En hvað skuldar þú?’ Hann svaraði: ‘Hundrað tunnur hveitis.’ Og hann sagði honum: ‘Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.’
8Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.
9Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.
Trúr í því smæsta
10Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu. 11Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? 12Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er?
13Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.”
Guð þekkir hjörtu yðar
14En farísearnir, sem voru menn fégjarnir, heyrðu þetta og gjörðu gys að honum. 15En hann sagði við þá: “Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs.
16Lögmálið og spámennirnir ná fram til Jóhannesar. Þaðan í frá er flutt fagnaðarerindi Guðs ríkis, og hver maður vill ryðjast þar inn.
17En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi.
18Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór.
Ríkur og snauður
19Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. 20En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. 21Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. 22En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.
23Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. 24Þá kallaði hann: ‘Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.’
25Abraham sagði: ‘Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. 26Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.’ 27En hann sagði: ‘Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, 28en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.’ 29En Abraham segir: ‘Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.’ 30Hinn svaraði: ‘Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.’ 31En Abraham sagði við hann: ‘Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.’”

Šiuo metu pasirinkta:

Lúkasarguðspjall 16: BIBLIAN81

Paryškinti

Dalintis

Kopijuoti

None

Norite, kad paryškinimai būtų įrašyti visuose jūsų įrenginiuose? Prisijunkite arba registruokitės