Fyrsta Mósebók 18
18
Englar vitja Abrahams
1Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. 2Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar 3og mælti:
„Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. 4Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? 5Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“
Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“
6Abraham flýtti sér inn í tjaldið til Söru og sagði: „Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla af fínu mjöli. Hnoðaðu það og bakaðu flatkökur.“
7Hann hljóp til nautanna og tók ungan og vænan kálf og fékk vikapiltinum sem matbjó hann í skyndi. 8Hann tók skyr og mjólk og kálfinn sem var matbúinn og setti fyrir gestina. Þeir tóku til matar síns en sjálfur stóð hann undir trénu andspænis þeim.
9Þeir sögðu við hann: „Hvar er Sara, kona þín?“
Abraham svaraði: „Hún er inni í tjaldi.“
10Einn þeirra sagði: „Það mun ekki bregðast að ég kem til þín um sama leyti að ári og mun þá Sara kona þín hafa eignast son.“
Þetta heyrði Sara sem stóð í tjalddyrunum að baki hans. 11Abraham og Sara voru orðin gömul og komin til ára sinna og kvenlegir eðlishættir horfnir Söru. 12Hún hló með sjálfri sér og hugsaði: „Skyldi ég njóta ásta sem orðin er útslitin og bóndi minn gamall?“
13Drottinn sagði við Abraham: „Hví hló Sara og spurði: Hvernig má það vera að ég ali barn svo gömul? 14Er Drottni nokkuð ómáttugt? Ég mun koma til þín aftur á sama misseri að ári og Sara hefur þá eignast son.“
15„Ég hló ekki,“ skrökvaði Sara því að hún var hrædd.
Drottinn mælti: „Víst hlóstu.“
Abraham biður fyrir Sódómu
16Mennirnir tóku sig nú upp þaðan og horfðu í átt til Sódómu. Abraham ætlaði að fylgja þeim áleiðis.
17Þá mælti Drottinn: „Hví ætti ég að dylja Abraham þess sem ég hef í hyggju 18þar sem hann mun verða að mikilli og voldugri þjóð og allir lýðir heims munu af honum blessun hljóta? 19Ég hef kjörið hann til þess að bjóða börnum sínum og niðjum eftir sig að gefa gætur að vegi Drottins og iðka rétt og réttlæti. Mun þá Drottinn láta koma fram við Abraham það sem hann hefur heitið honum.“
20Drottinn sagði: „Neyðarópin frá Sódómu og Gómorru eru mikil og synd þeirra mjög þung. 21Ég ætla að stíga niður og gæta að hvort þeir hafa aðhafst allt sem neyðarópin, sem borist hafa til mín, benda til. Ef ekki vil ég vita það.“
22Mennirnir sneru nú þaðan og héldu til Sódómu en Abraham stóð enn frammi fyrir Drottni. 23Hann gekk fram og mælti: „Ætlarðu að tortíma hinum réttláta með hinum óguðlega? 24Vera má að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Ætlarðu þá að tortíma þeim og þyrma ekki borginni vegna hinna fimmtíu réttlátu sem þar eru? 25Fjarri þér sé að gera slíkt, að deyða hinn réttláta með hinum guðlausa. Fer þá hinum réttláta eins og hinum guðlausa. Fjarri sé það þér. Mun dómari allrar jarðarinnar ekki gera rétt?“
26Drottinn svaraði: „Finni ég fimmtíu réttláta í Sódómu þá þyrmi ég borginni allri þeirra vegna.“
27Þá sagði Abraham: „Ég hef dirfst að eiga orðastað við sjálfan Drottin þótt ég sé duft eitt og aska. 28Nú kann fimm að skorta á tölu fimmtíu réttlátra. Ætlarðu þá að tortíma allri borginni vegna þeirra fimm?“
Hann svaraði: „Ég mun ekki tortíma borginni ef ég finn þar fjörutíu og fimm.“
29Og enn sagði Abraham við hann: „Vera má að þar finnist ekki nema fjörutíu.“
Hann svaraði: „Vegna hinna fjörutíu mun ég ekkert aðhafast.“
30Þá sagði Abraham: „Nú má Drottinn ekki reiðast mér, að ég tek aftur til máls. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu.“
Hann svaraði: „Ef ég finn þar þrjátíu aðhefst ég ekkert.“
31Þá sagði Abraham: „Enn gerist ég svo djarfur að ávarpa Drottin. Vera má að þar finnist ekki nema tuttugu.“
Hann svaraði: „Vegna hinna tuttugu tortími ég ekki borginni.“
32Abraham mælti: „Nú má Drottinn ekki reiðast mér þótt ég taki til máls aðeins í þetta eina skipti. Vera má að þar finnist ekki nema tíu.“
Hann svaraði: „Vegna hinna tíu tortími ég ekki borginni.“
33Og Drottinn fór er hann hafði lokið að tala við Abraham en Abraham hvarf aftur heimleiðis.
Цяпер абрана:
Fyrsta Mósebók 18: BIBLIAN07
Пазнака
Падзяліцца
Капіяваць
Хочаце, каб вашыя адзнакі былі захаваны на ўсіх вашых прыладах? Зарэгіструйцеся або ўвайдзіце
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007