YouVersion Logo
Search Icon

Lúkasarguðspjall 13

13
Ef þér takið ekki sinnaskiptum
1Í sama mund komu einhverjir til Jesú og sögðu honum frá Galíleumönnunum sem Pílatus lét drepa er þeir færðu fórnir sínar svo að blóð þeirra blandaðist fórnarblóðinu. 2Jesús mælti við þá: „Haldið þér að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn fyrst þeir urðu að þola þetta? 3Nei, segi ég yður, en ef þér takið ekki sinnaskiptum munuð þér allir farast á sama hátt. 4Eða þeir átján sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, haldið þér að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn sem í Jerúsalem búa? 5Nei, segi ég yður, en ef þér takið ekki sinnaskiptum munuð þér allir farast á sama hátt.“
Enn þetta ár
6Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. 7Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? 8En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. 9Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“
Leyst úr fjötrum
10Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. 11Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið sjúk. Hún var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. 12Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ 13Þá lagði Jesús hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð.
14En samkundustjórinn reiddist því að Jesús læknaði á hvíldardegi og mælti til fólksins: „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna ykkur og ekki á hvíldardegi.“
15Drottinn svaraði honum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? 16En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“ 17Þegar Jesús sagði þetta urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir en allt fólkið fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum er hann gerði.
Hverju er Guðs ríki líkt?
18Jesús sagði nú: „Hverju er Guðs ríki líkt? Við hvað á ég að líkja því? 19Líkt er það mustarðskorni sem maður tók og sáði í jurtagarð sinn. Það óx og varð tré og fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess.“
20Og aftur sagði Jesús: „Við hvað á ég að líkja Guðs ríki? 21Líkt er það súrdeigi er kona tók og fól í þrem mælum mjöls uns það sýrðist allt.“
Að komast inn
22Og Jesús hélt áfram til Jerúsalem, fór um borgir og þorp og kenndi. 23Einhver sagði við hann: „Drottinn, eru þeir fáir sem hólpnir verða?“
Jesús sagði við þá: 24„Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar því að margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta. 25Þegar húsbóndinn stendur upp og lokar dyrum og þér takið þá að standa fyrir utan og knýja á dyr og segja: Herra, ljúk þú upp fyrir oss! mun hann svara yður: Ég veit ekki hvaðan þér eruð. 26Þá munuð þér segja: Vér höfum þó etið og drukkið með þér og þú kenndir á götum vorum. 27Og hann mun svara: Ég segi yður, ég veit ekki hvaðan þér eruð, farið frá mér, allir illgjörðamenn! 28Þar verður grátur og gnístran tanna er þér sjáið Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki en yður út rekin. 29Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki. 30Þá geta síðastir orðið fyrstir og fyrstir síðastir.“
Þér vilduð eigi
31Á þeirri stundu komu nokkrir farísear og sögðu við Jesú: „Far þú og hald á brott héðan því að Heródes vill drepa þig.“
32Og Jesús sagði við þá: „Farið og segið ref þeim: Í dag og á morgun rek ég út illa anda og lækna og á þriðja degi mun ég marki ná. 33En mér ber að halda áfram ferð minni í dag og á morgun og næsta dag því að eigi hæfir að spámaður bíði dauða annars staðar en í Jerúsalem.
34Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum eins og hænan ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. 35Guð mun yfirgefa musteri yðar og það verður lagt í rúst. Ég segi yður: Þér munuð eigi sjá mig fyrr en þar er komið að þér segið: Blessaður sé sá er kemur í nafni Drottins!“

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in