YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 29

29
Jakob og Rakel hittast
1Jakob hélt áfram ferð sinni og kom til lands austurbyggja. 2Og er hann litaðist um, sjá, þá var þar brunnur á mörkinni, og sjá, þar lágu þrjár sauðahjarðir við hann, því að þeir voru vanir að vatna hjörðunum við þennan brunn. En steinn mikill lá yfir munna brunnsins. 3Og er allar hjarðirnar voru þar saman reknar, veltu þeir steininum frá munna brunnsins og vötnuðu fénu, síðan létu þeir steininn aftur yfir munna brunnsins á sinn stað. 4Þá sagði Jakob við þá: “Kæru bræður, hvaðan eruð þér?” 5Þeir svöruðu: “Vér erum frá Harran.” Og hann mælti til þeirra: “Þekkið þér Laban Nahorsson?” Þeir svöruðu: “Já, vér þekkjum hann.” 6Og hann mælti til þeirra: “Líður honum vel?” Þeir svöruðu: “Honum líður vel. Og sjá, þarna kemur Rakel dóttir hans með féð.” 7Og hann mælti: “Sjá, enn er mikið dags eftir og ekki kominn tími til að reka saman fénaðinn. Brynnið fénu, farið síðan og haldið því á haga.” 8Þeir svöruðu: “Það getum vér ekki fyrr en allar hjarðirnar eru saman reknar, þá velta þeir steininum frá munna brunnsins, og þá brynnum vér fénu.” 9Áður en hann hafði lokið tali sínu við þá, kom Rakel með féð, sem faðir hennar átti, því að hún sat hjá. 10En er Jakob sá Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns, og fé Labans móðurbróður síns, þá fór hann til og velti steininum frá munna brunnsins og vatnaði fé Labans móðurbróður síns. 11Og Jakob kyssti Rakel og tók að gráta hástöfum. 12Og Jakob sagði Rakel, að hann væri frændi föður hennar og að hann væri sonur Rebekku. En hún hljóp og sagði þetta föður sínum. 13En er Laban fékk fregnina um Jakob systurson sinn, gekk hann skjótlega á móti honum, faðmaði hann að sér og minntist við hann, og leiddi hann inn í hús sitt. En hann sagði Laban alla sögu sína. 14Þá sagði Laban við hann: “Sannlega ert þú hold mitt og bein!” Og hann var hjá honum heilan mánuð.
Jakob kvænist Leu og Rakel
15Laban sagði við Jakob: “Skyldir þú þjóna mér fyrir ekki neitt, þó að þú sért frændi minn? Seg mér, hvert kaup þitt skuli vera.” 16En Laban átti tvær dætur. Hét hin eldri Lea, en Rakel hin yngri. 17Og Lea var daufeygð, en Rakel var bæði vel vaxin og fríð sýnum. 18Og Jakob elskaði Rakel og sagði: “Ég vil þjóna þér í sjö ár fyrir Rakel, yngri dóttur þína.” 19Laban svaraði: “Betra er að ég gefi þér hana en að ég gefi hana öðrum manni. Ver þú kyrr hjá mér.” 20Síðan vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirrar, er hann bar til hennar. 21Og Jakob sagði við Laban: “Fá mér nú konu mína, því að minn ákveðni tími er liðinn, að ég megi ganga inn til hennar.” 22Þá bauð Laban til sín öllum mönnum í þeim stað og hélt veislu. 23En um kveldið tók hann Leu dóttur sína og leiddi hana inn til hans, og hann gekk í sæng með henni. 24Og Laban fékk henni Silpu ambátt sína, að hún væri þerna Leu dóttur hans. 25En um morguninn, sjá, þá var það Lea. Og hann sagði við Laban: “Hví hefir þú gjört mér þetta? Hefi ég ekki unnið hjá þér fyrir Rakel? Hví hefir þú þá svikið mig?” 26Og Laban sagði: “Það er ekki siður í voru landi að gifta fyrr frá sér yngri dótturina en hina eldri. 27Enda þú út brúðkaupsviku þessarar, þá skulum vér einnig gefa þér hina fyrir þá vinnu, sem þú munt vinna hjá mér í enn önnur sjö ár.” 28Og Jakob gjörði svo og endaði út vikuna með henni. Þá gifti hann honum Rakel dóttur sína. 29Og Laban fékk Rakel dóttur sinni Bílu ambátt sína fyrir þernu. 30Og hann gekk einnig í sæng með Rakel og hann elskaði Rakel meira en Leu. Og hann vann hjá honum í enn önnur sjö ár.
Börn Jakobs
31Er Drottinn sá, að Lea var fyrirlitin, opnaði hann móðurlíf hennar, en Rakel var óbyrja. 32Og Lea varð þunguð og ól son og nefndi hann Rúben, því að hún sagði: “Drottinn hefir séð raunir mínar. Nú mun bóndi minn elska mig.” 33Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son. Þá sagði hún: “Drottinn hefir heyrt að ég er fyrirlitin. Fyrir því hefir hann einnig gefið mér þennan son.” Og hún nefndi hann Símeon. 34Og enn varð hún þunguð og ól son. Þá sagði hún: “Nú mun bóndi minn loks hænast að mér, því að ég hefi fætt honum þrjá sonu.” Fyrir því nefndi hún hann Leví. 35Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði: “Nú vil ég vegsama Drottin.” Fyrir því nefndi hún hann Júda. Og hún lét af að eiga börn.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in