Fyrsta Mósebók 1
1
Sköpun heims og frumsaga
Sköpunarsagan
1Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. 2Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum.
3Þá sagði Guð: „Verði ljós.“ Og það varð ljós.
4Guð sá að ljósið var gott og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. 5Guð nefndi ljósið dag en myrkrið nótt. Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.
6Þá sagði Guð: „Verði festing milli vatnanna og hún greini vötn frá vötnum.“
7Þá gerði Guð festinguna. Skildi hún milli vatnanna sem voru undir festingunni og vatnanna sem voru yfir festingunni. Og það varð svo.
8Og Guð nefndi festinguna himin#1.8 Í grísku sjötíumannaþýðingunni stendur hér: Og Guð sá að það var gott. Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn annar dagur.
9Þá sagði Guð: „Vötnin undir himninum safnist saman í einn stað og þurrlendið komi í ljós.“ Og það varð svo.
10Guð nefndi þurrlendið jörð og safn vatnanna nefndi hann haf. Og Guð sá að það var gott.
11Þá sagði Guð: „Jörðin láti gróður af sér spretta, sáðjurtir og aldintré af öllum tegundum jarðar sem bera ávöxt með sæði.“ Og það varð svo.
12Jörðin lét gróður af sér spretta, alls kyns sáðjurtir og aldintré af öllum tegundum sem bera ávöxt með fræi.
Og Guð sá að það var gott.
13Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn þriðji dagur.
14Þá sagði Guð: „Verði ljós á hvelfingu himins til þess að greina dag frá nóttu. Þau skulu vera tákn til þess að marka tíðir, daga og ár 15og þau skulu vera ljósgjafar á festingu himins til þess að bera jörðinni birtu.“ Og það varð svo.
16Guð gerði tvö stóru ljósin, stærra ljósið til að ráða degi og minna ljósið til að ráða nóttu, og einnig stjörnurnar. 17Og Guð setti þau á festingu himinsins til þess að bera jörðinni birtu 18og ráða degi og nóttu og til að greina ljós frá myrkri. Og Guð sá að það var gott.
19Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn fjórði dagur.
20Þá sagði Guð: „Vötnin verði kvik af lífverum og fuglar fljúgi yfir jörðinni undir hvelfingu himins.“
21Og Guð skapaði hin stóru sjávardýr og alls kyns skepnur, sem lifa og hrærast og vötnin eru kvik af, og alla fleyga fugla eftir þeirra tegundum.
Og Guð sá að það var gott.
22Guð blessaði þau og sagði: „Frjóvgist og fjölgið ykkur og fyllið vötn sjávarins og fuglum fjölgi á jörðinni.“
23Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn fimmti dagur.
24Þá sagði Guð: „Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund, búfé, skriðdýr og villidýr, hvert eftir sinni tegund.“ Og það varð svo.
25Guð gerði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, búfé eftir sinni tegund og hvers konar skriðdýr jarðarinnar eftir sinni tegund. Og Guð sá að það var gott.
26Þá sagði Guð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“
27Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.
28Guð blessaði þau. Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“
29Og Guð sagði: „Nú gef ég ykkur allar sáðjurtir jarðarinnar og öll aldintré sem bera ávöxt með fræi. Þau skulu vera ykkur til fæðu. 30Og öllum dýrum jarðarinnar, öllum fuglum himinsins, öllum skriðdýrum jarðarinnar, öllu sem hefur lífsanda í sér, gef ég öll grös og jurtir til fæðu.“ Og það varð svo.
31Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.
Og það varð kvöld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.
Jelenleg kiválasztva:
Fyrsta Mósebók 1: BIBLIAN07
Kiemelés
Megosztás
Másolás
Szeretnéd, hogy a kiemeléseid minden eszközödön megjelenjenek? Regisztrálj vagy jelentkezz be
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007