Jóhannesarguðspjall 13
13
Eftirdæmi
1Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.
2Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. 3Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. 4Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. 5Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. 6Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“
7Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“
8Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ 9Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“
10Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur.#13.10 Orðin „nema um fætur“ vantar í sum handrit. Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ 11Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“
12Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? 13Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. 14Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. 15Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður. 16Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim er sendi hann. 17Þér vitið þetta og þér eruð sælir ef þér breytið eftir því.
18Ég tala ekki um yður alla. Ég veit hverja ég hef útvalið. En ritningin verður að rætast: Sá sem etur brauð mitt lyftir hæli sínum móti mér. 19Ég segi yður þetta núna áður en það verður svo að þér trúið þegar það er orðið að ég er sá sem ég er. 20Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem tekur við þeim sem ég sendi, hann tekur við mér og sá sem tekur við mér, tekur við þeim er sendi mig.“
Einn mun svíkja
21Þegar Jesús hafði sagt þetta varð honum mjög þungt um hjarta og hann sagði beinum orðum: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig.“
22Lærisveinarnir litu hver á annan og skildu ekki við hvern hann ætti. 23Sá lærisveinn Jesú sem hann elskaði sat næstur honum. 24Símon Pétur benti honum og bað hann spyrja hver sá væri sem Jesús talaði um.
25Hann laut þá að Jesú og spurði: „Drottinn, hver er það?“
26Jesús svaraði: „Það er sá sem ég fæ bita þann er ég dýfi nú í.“ Þá dýfði hann í bitanum, tók hann og fékk Júdasi, syni Símonar Ískaríots. 27Og eftir þann bita fór Satan inn í hann. Jesús segir við hann: „Það sem þú gerir, það ger þú skjótt!“ 28En enginn þeirra sem sátu til borðs vissi til hvers hann sagði þetta við hann. 29En Júdas hafði pyngjuna og því héldu sumir þeirra að Jesús hefði sagt við hann: „Kauptu það sem við þurfum til hátíðarinnar,“ − eða að hann skyldi gefa eitthvað fátækum. 30Þá er hann hafði tekið við bitanum gekk hann jafnskjótt út. Þá var nótt.
Nýtt boðorð
31Þegar hann var farinn út sagði Jesús: „Nú er Mannssonurinn dýrlegur orðinn og Guð er orðinn dýrlegur í honum. 32Fyrst Mannssonurinn hefur birt dýrð Guðs mun Guð veita honum dýrð sína og skjótt mun hann gera það. 33Börnin mín, stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín og eins og ég sagði Gyðingum segi ég yður nú: Þangað sem ég fer getið þér ekki komist. 34Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. 35Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“
Pétur afneitar
36Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, hvert ferðu?“
Jesús svaraði: „Þú getur ekki fylgt mér nú þangað sem ég fer en síðar muntu fylgja mér.“
37Pétur segir við hann: „Drottinn, hví get ég ekki fylgt þér nú? Ég vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig.“
38Jesús svaraði: „Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig? Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar.“
Attualmente Selezionati:
Jóhannesarguðspjall 13: BIBLIAN07
Evidenziazioni
Condividi
Copia
Vuoi avere le tue evidenziazioni salvate su tutti i tuoi dispositivi?Iscriviti o accedi
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007