Jóhannesarguðspjall 5
5
Við Betesdalaug
1Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem. 2Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. 3Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. 4En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] 5Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. 6Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: “Viltu verða heill?”
7Hinn sjúki svaraði honum: “Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér.”
8Jesús segir við hann: “Statt upp, tak rekkju þína og gakk!” 9Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
En þessi dagur var hvíldardagur, 10og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: “Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.”
11Hann svaraði þeim: “Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ‘Tak rekkju þína og gakk!’”
12Þeir spurðu hann: “Hver er sá maður, sem sagði þér: ‘Tak hana og gakk’?”
13En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum.
14Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: “Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra.”
15Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann. 16Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi. 17En hann svaraði þeim: “Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.”
18Nú sóttu Gyðingar enn fastar að taka hann af lífi, þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina, heldur kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.
Upprisa og líf
19Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: “Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig. 20Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðu lostnir. 21Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill. 22Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm, 23svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann.
24Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. 25Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa. 26Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. 27Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur. 28Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans 29og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins. 30Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.
Faðirinn vitnar
31Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur. 32Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér. 33Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni. 34Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast. 35Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans. 36Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig. 37Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans. 38Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi. 39Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig, 40en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.
41Ég þigg ekki heiður af mönnum, 42en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs. 43Ég er kominn í nafni föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum. 44Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði? 45Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér. 46Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað. 47Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?”
सध्या निवडलेले:
Jóhannesarguðspjall 5: BIBLIAN81
ठळक
सामायिक करा
कॉपी करा
तुमचे हायलाइट तुमच्या सर्व डिव्हाइसेसवर सेव्ह करायचे आहेत? साइन अप किंवा साइन इन
Icelandic Bible © Icelandic Bible Society, 1981.