Fyrsta Mósebók 32
32
1Jakob fór leiðar sinnar. Mættu honum þá englar Guðs. 2Og er Jakob sá þá, mælti hann: “Þetta eru herbúðir Guðs.” Og hann nefndi þennan stað Mahanaím.
Jakob býst til að mæta Esaú
3Jakob gjörði sendimenn á undan sér til Esaú bróður síns til Seír-lands, Edómhéraðs. 4Og hann bauð þeim og sagði: “Segið svo herra mínum Esaú: ‘Svo segir þjónn þinn Jakob: Ég hefi dvalið hjá Laban og verið þar allt til þessa. 5Og ég hefi eignast uxa, asna og sauði, þræla og ambáttir, og sendi ég nú til herra míns að láta hann vita það, svo að ég megi finna náð í augum þínum.’”
6Sendimennirnir komu aftur til Jakobs og sögðu: “Vér komum til Esaú bróður þíns. Hann er sjálfur á leiðinni á móti þér og fjögur hundruð manns með honum.” 7Þá varð Jakob mjög hræddur og kvíðafullur. Og hann skipti mönnunum, sem með honum voru, og sauðunum, nautunum og úlföldunum í tvo flokka. 8Og hann hugsaði: “Þó að Esaú ráðist á annan flokkinn og strádrepi hann, þá getur samt hinn flokkurinn komist undan.”
9Og Jakob sagði: “Guð Abrahams föður míns og Guð Ísaks föður míns, Drottinn, þú sem sagðir við mig: ‘Hverf heim aftur til lands þíns og til ættfólks þíns, og ég mun gjöra vel við þig,’ - 10ómaklegur er ég allrar þeirrar miskunnar og allrar þeirrar trúfesti, sem þú hefir auðsýnt þjóni þínum. Því að með stafinn minn einn fór ég þá yfir Jórdan, en nú á ég yfir tveim flokkum að ráða. 11Æ, frelsa mig undan valdi bróður míns, undan valdi Esaú, því að ég óttast hann, að hann komi og höggvi oss niður sem hráviði. 12Og þú hefir sjálfur sagt: ‘Ég mun vissulega gjöra vel við þig og gjöra niðja þína sem sand á sjávarströndu, er eigi verður talinn fyrir fjölda sakir.’” 13Og hann var þar þá nótt.
Og hann tók gjöf handa Esaú bróður sínum af því, sem hann hafði eignast: 14tvö hundruð geitur og tuttugu geithafra, tvö hundruð ásauðar og tuttugu hrúta, 15þrjátíu úlfaldahryssur með folöldum, fjörutíu kýr og tíu griðunga, tuttugu ösnur og tíu ösnufola. 16Og hann fékk þetta í hendur þjónum sínum, hverja hjörð út af fyrir sig, og mælti við þjóna sína: “Farið á undan mér og látið vera bil á milli hjarðanna.” 17Og þeim, sem fyrstur fór, bauð hann á þessa leið: “Þegar Esaú bróðir minn mætir þér og spyr þig og segir: ‘Hvers maður ert þú og hvert ætlar þú að fara og hver á þetta, sem þú rekur á undan þér?’ 18þá skaltu segja: ‘Þjónn þinn Jakob á það. Það er gjöf, sem hann sendir herra mínum Esaú. Og sjá, hann er sjálfur hér á eftir oss.’” 19Á sömu leið bauð hann hinum öðrum og þriðja og öllum þeim, sem hjarðirnar ráku, og mælti: “Þannig skuluð þér tala við Esaú, þegar þér hittið hann. 20Og þér skuluð einnig segja: ‘Sjá, þjónn þinn Jakob kemur sjálfur á eftir oss.’” Því að hann hugsaði: “Ég ætla að blíðka hann með gjöfinni, sem fer á undan mér. Því næst vil ég sjá hann. Vera má, að hann taki mér þá blíðlega.” 21Þannig fór gjöfin á undan honum, en sjálfur var hann þessa nótt í herbúðunum.
Jakobsglíman
22Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu. 23Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti.
24Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. 25Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. 26Þá mælti hinn: “Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún.” En hann svaraði: “Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig.” 27Þá sagði hann við hann: “Hvað heitir þú?” Hann svaraði: “Jakob.” 28Þá mælti hann: “Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur.” 29Og Jakob spurði hann og mælti: “Seg mér heiti þitt.” En hann svaraði: “Hvers vegna spyr þú mig að heiti?” Og hann blessaði hann þar. 30Og Jakob nefndi þennan stað Peníel, “því að ég hefi,” kvað hann, “séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.” 31Og er hann fór frá Penúel, rann sólin upp. Var hann þá haltur í mjöðminni. 32Fyrir því eta Ísraelsmenn allt til þessa dags ekki sinina, sem er ofan á augnakarlinum, því að hann hitti mjöðm Jakobs þar sem sinin er undir.
Currently Selected:
Fyrsta Mósebók 32: BIBLIAN81
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic Bible © Icelandic Bible Society, 1981.