YouVersion Logo
تلاش

Lúkasarguðspjall 12

12
Varað við hræsni
1Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda svo að nærri tróð hver annan undir.
Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: „Varist súrdeig farísea sem er hræsnin. 2Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert né leynt er eigi verður kunnugt. 3Því mun allt það sem þér hafið talað í myrkri heyrast í birtu, og það sem þér hafið hvíslað í herbergjum mun kunngjört á þökum uppi.
Hvern ber að hræðast?
4Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gert. 5Ég skal sýna yður hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann.
6Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó gleymir Guð engum þeirra. 7Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Óttist ekki, þér eruð meira verðir en margir spörvar.
Að kannast við Krist fyrir mönnum
8En ég segi yður: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum mun og Mannssonurinn kannast við fyrir englum Guðs. 9En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum mun Mannssonurinn afneita fyrir englum Guðs.
10Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem lastmælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið.
11Og þegar þeir leiða yður fyrir samkundur, höfðingja og yfirvöld, hafið þá ekki áhyggjur af því hvernig eða með hverju þér eigið að verja yður eða hvað þér eigið að segja. 12Því að heilagur andi mun kenna yður á þeirri stundu hvað segja ber.“
Ríki bóndinn
13Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“
14Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ 15Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“
16Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. 17Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. 18Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. 19Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.
20En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? 21Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“
Ekki áhyggjufullir
22Og Jesús sagði við lærisveina sína: „Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. 23Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin. 24Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum! 25Og hver yðar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn?#12.25 Eða: við hæð sína. 26Fyrst þér nú orkið ekki svo litlu, hví látið þér allt hitt valda yður áhyggjum? 27Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.
28Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða yður, þér trúlitlir!
29Hafið ekki hugann við hvað þér eigið að eta og hvað að drekka, og kvíðið engu. 30Allt þetta stunda heiðingjar heimsins en faðir yðar veit að þér þarfnist þessa. 31Leitið heldur ríkis hans og þá mun þetta veitast yður að auki.
Fjársjóður sem fyrnist ekki
32Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið. 33Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur er slitna ekki, fjársjóð á himnum er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. 34Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.
Verið viðbúnir
35Verið vel tygjaðir#12.35 Orðrétt: Verið gyrtir um lendar. og látið ljós yðar loga 36og verið líkir þjónum er bíða þess að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. 37Sælir eru þeir þjónar sem húsbóndinn finnur vakandi er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun búa sig,#12.37 Orðrétt: hann mun gyrða sig belti. láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim. 38Og komi hann um miðnætti eða síðar#12.38 Orðrétt: um aðra eða þriðju næturvöku. Gyðingar skiptu tímanum frá kl. sex að kvöldi til kl. sex að morgni í þrjár næturvökur, en Rómverjar skiptu sama tíma í fjórar næturvökur, sbr. Mrk 13.35. Hér virðist um gyðinglegt tímatal að ræða. og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá. 39Það skiljið þér að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu þjófurinn kæmi. 40Verið þér og viðbúnir því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“
41Þá spurði Pétur: „Drottinn, mælir þú þessa líkingu til okkar eða til allra?“
42Drottinn mælti: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? 43Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. 44Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. 45En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, 46þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.
47Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. 48En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.
Eldur á jörðu
49Ég er kominn að varpa eldi á jörðu. Hversu vildi ég að hann væri þegar kveiktur! 50Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér uns hún er fullnuð.
51Ætlið þér að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki. 52Upp frá þessu verða fimm í sama húsi sundurþykkir, þrír við tvo og tveir við þrjá, 53faðir við son og sonur við föður, móðir við dóttur og dóttir við móður, tengdamóðir við tengdadóttur sína og tengdadóttir við tengdamóður.“
Tákn tímanna
54Jesús sagði og við fólkið: „Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri segið þér jafnskjótt: Nú fer að rigna. Og svo verður. 55Og þegar vindur blæs af suðri segið þér: Nú kemur hiti. Og svo fer. 56Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða. Hvers vegna kunnið þér ekki að meta það sem nú er að gerast?
57Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður hvað rétt sé? 58Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig réttarþjóninum og hann varpi þér í fangelsi. 59Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.“

موجودہ انتخاب:

Lúkasarguðspjall 12: BIBLIAN07

سرخی

شئیر

کاپی

None

کیا آپ جاہتے ہیں کہ آپ کی سرکیاں آپ کی devices پر محفوظ ہوں؟ Sign up or sign in